2023

2023

Jeppa- göngu- og matarupplifunarferð út frá gistihúsinu Hrífunes Guesthouse

Sumarið 2023 (júní - september) bjóða ferðaþjónustubændurnir Hadda Björk Gísladóttir og Haukur Snorrason Íslendingum upp á jeppa- og gönguferðir um eitt fjölbreyttasta svæði Íslands, Eldsveitirnar.

Gist verður í Hrífunes Guesthouse sem er margverðlaunað fyrir góða þjónustu, persónulegt andrúmsloft og frábæran mat.

 

Um er að ræða þriggja daga ferðir fyrir litla hópa á breyttum fjallabíl.
Í ferðinni verður m.a. farið yfir eldfjallasögu svæðisins og ýmsir leynistaðir heimsóttir sem eru mörgum Íslendingum ókunnir.
Ferðirnar leiðir Haukur Snorrason ljósmyndari og leiðsögumaður.

 

Eftirfarandi dagsetningar eru lausar 2023


13. - 16. júlí - uppselt
17. - 20. júlí - uppselt
7. - 10. ágúst - uppselt
12. - 15. ágúst - uppselt
17. - 20. ágúst - uppselt
20. - 23. ágúst - uppselt
(Einnig eru tveggja daga ferðir í boði í júni. Dagskrá aðlöguð að færð á hálendisvegum)
 

Dagskrá

Komudagur.


Fólk kemur sér á eigin vegum í Hrífunes Guesthouse í Skaftártungu og mætir á milli kl. 16-19. Sameiginlegur kvöldverður er snæddur kl. 19:30 og mun Haukur Snorrason hitta hópinn og fara yfir dagskrá komandi daga.
Gisting: Hrífunes Guesthouse
Máltíðir: Kvöldverður

 

Dagur 1 - Fjallabak nyrðra
Hrífunes – Langisjór – Sveinstindur – Eldgjá – Hrífunes


Eftir staðgóðan morgunmat leggjum við af stað inn á Fjallabak nyrðra, ökum meðfram Skaftá og hrauninu sem rann úr Lakagígum 1783. Við teygjum úr okkur við Hólaskjól og tökum stutta göngu inn að Gullfossi. Þaðan ökum við inn að Langasjó sem er eitt afskekktasta vatn Íslands. Við göngum upp á Sveinstind en gangan á topp fjallsins er fær öllum meðal göngumönnum. Útsýnið af Sveinstindi er stórkostlegt þar sem sést yfir Langasjó, Skaftá og Vatnajökul. Við höldum til baka aðra leið í gegnum Blautulón, Skælinga og ökum svo upp á  barm Eldgjár þaðan sem við fáum útsýni yfir Ófærufoss. Hér lýkur deginum og við ökum sem leið liggur niður í Hrífunes þar sem girnileg kvöldmáltíð bíður okkar.
Gisting: Hrífunes Guesthouse
Máltíðir: Morgunmatur, hádegisnesti og kvöldverður

 

Dagur 2 - Fjallabak syðra
Hrífunes – Hólmsárfossar - Mælifellssandur – Strútslaug - Axlarfoss


Eftir morgunmat ökum við inn á Fjallabak syðra. Við förum lítt þekkta leið fram hjá Öldufelli, bak við Mýrdalsjökul og virðum fyrir okkur fallega fossa s.s. Hólmsárfossa. Eitt fallegasta fjall Íslands, Mælifell, verður á leið okkar þar sem það trónir á miðjum svörtum Mælifellssandinum íklætt grænum mosa. Frá Mælifelli ökum við sem leið liggur inn að fjallinu Strúti, þaðan sem við göngum að Strútslaug og skellum okkur í villibað í miðjum fjallasal. Gangan er hófleg klukkustundarganga hvora leið. Ath – taka þarf með sundföt og handklæði og enga búningsklefa er þarna að finna.
Við endum daginn á því að aka aðra leið niður af Fjallabaki, yfir Hólmsá og skoðum Axlarfoss  áður en við höldum heim í Hrífunes og njótum annarrar "a la" Hrífunes máltíðar.
Gisting: Hrífunes Guesthouse
Máltíðir: Morgunmatur, hádegisnesti og kvöldverður

 

Dagur 3 - Fjall, foss og fjara
Hrífunes – leynifoss – Eldhraun - Skaftárósar


Við leggjum í'ann inn á Öldufellsleið sem er rétt við bæjardyrnar hjá okkur og keyrum innundir sunnanverðan Mýrdalsjökul og göngum inn með Sandfellsjökli að einum af fallegri fossum á Íslandi. Foss þessi er, að ótöldum örfáum smalamönnum, nánast öllum Íslendingum ókunnur. Gönguleiðin er í meðallagi erfið. Eftir förina að leynifossinum höldum við til baka í Hrífunes og snæðum nestið okkar.
Eftir hádegi ökum við að suðurströndinni, í gegnum Eldhraunið og er förinni heitið að hinum forna verslunarstað að Skaftárósi á Klausturfjöru. Þar skoðum við gamalt verslunarhús, vita og fræðumst um sögu staðarins. Eftir heimsóknina í Skaftárósa er haldið til baka í Hrífunesið og er þar með formlegri ferðadagskrá lokið.
Gisting: Valfrjálst er að gista fjórðu nóttina í Hrífunesi (gegn aukagjaldi og háð framboði) eftir að dagskrá lýkur.
Máltíðir: Morgunmatur og hádegisnesti. Hægt er að kaupa kvöldverð síðasta kvöldið.

Lágmarksfjöldi farþega í ferðina er 8 manns.

Við erum með þrjá breytta fjallatrukka; Ford Excursion, Ford Econoline og Benz Sprinter sem við notum fyrir mismunandi hópastærðir.

Innifalið í verðinu er þriggja daga ferð á breyttum fjallajeppa með leiðsögn, gisting í  þrjár nætur í Hrífunes Guesthouse, sem og allar máltíðir (morgunmatur, hádegisnesti og kvöldverður).

Verð er 149.800 kr. á mann í tvíbýli, 179.800 kr. í einbýli og 125.800 kr. á mann í þríbýli. Aukakostnaður fyrir superior herbergi er kr. 18.000/mann
Aldurstakmark í ferðina er 14 ára.

Gistihúsið í Hrífunesi hefur getið sér gott orð fyrir framúrskarandi mat og persónulega þjónustu. Gisthúsið er margverðlaunað á bókunarsíðum s.s. Booking.com, TripAdvisor og Airbnb. Gistihúsið hlaut árið 2019 verðlaun frá Skaftárhreppi fyrir fallegt umhverfi og góða kynningu á náttúru svæðisins.  Það verður enginn svikinn af kvöldverðarhlaðborðinu í Hrífunesi þar sem Hadda Björk Gísladóttir og hennar samstarfsfólk býður upp á íslenskar afurðir heimaeldaðar á framandi og skemmtilegan hátt. Villibráð mun einnig verða á boðstólum og tryggt að grænkerar munu finna ýmsar góðar kræsingar.

Við áskiljum okkur rétt til að breyta dagskránni í takt við veðurspár.

Vinsamlegast sendið fyrirspurnir til hadda@hrifunesguesthouse.is

Vetrartilboð I – Gisting og kvöldverður fyrir tvo kr. 29.900

Vetrartilboð II – Tveggja nátta dvöl fyrir tvo ásamt morgunverði kr. 39.900

Vetrartilboð III – Tveggja nátta dvöl fyrir tvo ásamt morgunverði og kvöldverði kr. 58.900

 

Pantanir í síma 8632326 eða info@hrifunesguesthouse.is