2023

2023

Vetrargleði í Hrífunesi - febrúar, mars og apríl 2021


 

Skemmtilegar þriggja daga helgarferðir fyrir litla- og meðalstóra hópa út frá Hrífunesi í Skaftárhreppi.

Ekta íslensk sveitaupplifun sem inniheldur fróðleik, skemmtun og útivist

Við, ferðaþjónustubændur í Hrífunes Guesthouse, ætlum að bjóða upp á göngu- jeppa- og matarupplifunarferðir í vetur (fimmtudaga – sunnudags) fyrir litla og meðalstóra hópa.

Farið verður í dagsferðir um svæðið sem innihalda léttar göngur og skemmtilega útivist.

Ferðirnar leiða Haukur Snorrason ljósmyndari og leiðsögumaður og Hinrik Bjarnason tónlistamaður og leiðsögumaður.

Notast verður við tvo breytta fjalla “super” trukka í dagsferðunum og ýmsir staðir heimsóttir, sem eru flestum Íslendingum ókunnir. Við munum hleypa úr dekkjum og aka á snjó utan vegar til að komast á áfangastaðina og mun veður og færð ráða dagskránni að nokkrum hluta.

Dagferðirnar eru því að hluta til óvissuferðir, en það sem við getum upplýst er eftirfarandi:

- Farið verður á afskekkta fjöru neðan við Álftaver þar sem margt skemmtilegt að sjá og m.a. gamalt skipsflak sem stendur uppúr sandinum og skipbrotsmannaskýli.

- Við förum í léttgöngu að leynifossi utan alfaraleiðar. 

- Við fræðumst um eldfjöllin sem eru allt í kringum okkur og heyrum sögur af fólki fyrr og nú

- Við göngum upp á Spámannsfell, hittum þar spámanninn og sjáum hann breyta vatni í vín!!!

- Við munum heimsækja sauðfjárbónda á svæðinu og skoða vinnustofu hannyrðabónda sem ræktar feldfé og framleiðir þelull.

- Við reynum við aflraunasteina á Mýrdalssandi.

- Við skoðum gamla bæjarstæðið á Hjörleifshöfða og virðum fyrir okkur útsýnið meðfram suðurströndinni.

Það eru fleiri staðir sem við hyggjumst heimsækja, er ekki verða upplýstir hér.
Í lok föstu- eða laugardags (við veljum það kvöld sem býður uppá besta veðrið) munum við kveikja varðeld fyrir utan gistihúsið okkar, Hinrik nær í gítarinn, við tökum nokkur lög og hlýjum okkur með brjóstbirtu eins og hverjum og einum hentar. 

Komutími og brottfarardagur

Fimmtudagur
Fólk kemur sér á eigin vegum í Hrífunes Guesthouse í Skaftártungu og mætir kl. 16-19.
Kvöldverður er borinn fram kl. 19:30 og mun Haukur/Hinrik fara yfir dagskrá komandi daga.

Föstudagur og laugardagur – Óvissuferðir út frá Hrífunesi.

Sunnudagur
Morgunmatur kl. 8-10 og útritun kl. 11:30

Lágmarksfjöldi farþega í ferðina er 12 manns.

Dagsetningar:

18.-21. febrúar - uppselt

25.-28. febrúar - laus sæti

4. - 7. mars - uppselt

11. - 14. mars - uppselt

18. - 21. mars - laus sæti

25. - 28. mars - laus sæti

28. - 31. mars (sun - mið)

8. - 11. apríl - uppselt

Verð er 119.800 kr. á mann í tvíbýli, 136.500 kr. í einbýli og 99.800 kr. á mann í þríbýli.
Aldurstakmark í ferðina er 14 ára.
Innifalið í verðinu er tveggja daga ferð á breyttum fjallajeppa með leiðsögn, gisting í  þrjár nætur í Hrífunes Guesthouse, sem og allar máltíðir (morgunmatur, hádegisnesti og kvöldverður).

Gistihúsið í Hrífunesi hefur getið sér gott orð fyrir framúrskarandi mat og persónulega þjónustu. Gisthúsið er margverðlaunað á bókunarsíðum s.s. Booking.com, TripAdvisor og Airbnb. Gistihúsið hlaut árið 2019 verðlaun frá Skaftárhreppi fyrir fallegt umhverfi og góða kynningu á náttúru svæðisins. Það verður enginn svikinn af kvöldverðarhlaðborðinu í Hrífunesi þar sem Hadda Björk Gísladóttir og hennar samstarfsfólk býður upp á íslenskar afurðir heimaeldaðar á framandi og skemmtilegan hátt. Villibráð mun verða á boðstólum á laugardagskvöldinu en einnig verður tryggt að grænmetisætur munu finna ýmsar góðar kræsingar.

Við áskiljum okkur rétt til að breyta dagskránni í takt við veðurspár.

Vinsamlegast sendið fyrirspurnir til hadda@hrifunesguesthouse.is

Bookings: info@hrifunesguesthouse.is or Tel + 354 8632326